Nýtt hafrannsóknaskip verður sjósett í skipasmíðastöðinni Astilleros Armón í Vigo á Spáni 15. desember nk. Við sjósetningu mun skipið formlega hljóta nafnið Þórunn Þórðardóttir og fær það einkennisstafina HF 300.
Skipið mun draga nafn sitt af Þórunni Þórðardóttur sem var fyrsta íslenska konan með sérfræðimenntun í hafrannsóknum og var m.a. frumkvöðull í rannsóknum á frumframleiðni smáþörunga í hafinu við Ísland, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þá segir, að stefnt sé að afhendingu skipsins til Íslendinga í október 2024 og verði þá siglt til landsins.
Þórunn Þórðardóttir HF 300 mun leysa af hólmi Bjarna Sæmundsson HF 30 sem hefur þjónað sem hafrannsóknaskip í 53 ár. Skipið er nær 70 m langt og um 13 m breitt og er hannað af Skipasýn.
Við hönnun skipsins hefur verið lögð áhersla á að spara orku og draga úr umhverfisáhrifum og notkun jarðefnaeldsneytis.
Naust Marine hefur í yfir 30 ár einblínt á umhverfisvænar lausnir sem stuðla að því að draga úr eldsneytisnotkun, lágmarka hávaða og titring sem leiðir til betri skilvirkni. Það er því mikill heiður fyrir Naust Marine að taka þátt í þessu verkefni en allar vindur og annar þilfarsbúnaður er rafdrifinn.
Meðal búnaðar frá Naust Marine
- Togvindur
- Gilsa- og grandaravindur
- Rannsóknarvindur
- Netavindur
- Ankerisvindur ásamt öðrum hjálparvindum
- Kranar, gálgar og blakkir ásamt stjórnbúnaði